Innlent

"Að skera niður í Kvikmyndasjóði er eins og að skjóta mjólkurkúna“

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Friðrik Þór Friðriksson
Friðrik Þór Friðriksson
„Það er óviðunandi að búa við svona umhverfi, fyrir hvaða atvinnugrein sem er,“ segir Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndaleikstjóri og -framleiðandi um nýleg tíðindi þess efnis að ríkisstjórn hafi til skoðunar að minnka framlög til Kvikmyndasjóðs um 40 prósent.

„Síðasta ríkistjórn skar kvikmyndasjóð heiftarlega niður - en eftir að fjármagnið var aftur aukið  hefur orðið 238 prósent veltuaukning í kvikmyndaframleiðslu – þá eru myndbönd og sjónvarpsefni tekin með. Fjölgun ársverka voru tæplega sex hundruð,“ segir Friðrik, jafnframt.

„Þetta getur hver maður séð - þetta eru heimildir frá Hagstofu,“ bætir hann við.

„Síðan er erlend fjárfesting í kvikmyndaverkum langt yfir milljarði þannig að tekjur ríkisins – af hækkuninni – verður reiknaður upp á 1,2 milljarða rúmlega,“ segir Friðrik.

Friðrik segir íslenska kvikmyndagerð fjármagnaða eftir ákveðinni formúlu.

„Þegar Kvikmyndasjóður kemur með framlag þá þurfum við að leita að erlendu fjármagni eða innlendu, frá einkaaðilum, til að fjármagna gerð kvikmyndarinnar,“ útskýrir Friðrik.

„Þannig að að skera niður í Kvikmyndasjóði er eins og að skjóta mjólkurkúna,“ segir hann.

Friðrik segir íslenska kvikmyndagerð nánast einu atvinnugreinina sem er að koma með nýtt erlent fjármagn inn í landið, sem hefur ekki áður verið í íslensku hagkerfi.

„Svo getum við talað um þann tekjustofn ríkisins sem er ferðamannaiðnaðurinn. Aukningu ferðamanna til landsins má að stórum hluta rekja til þess hvað þessar stjörnur sem eru hérna í tökum hafa auglýst landið, á samfélagsmiðlum og í spjallþáttum og þar fram eftir götunum,“ segir Friðrik.

„Það er ekki hægt að setja verðmat á það,“ bætir hann við.

Friðrik segir íslensku myndirnar einnig hafa mikið aðdráttarafl.

„Hross í Oss er til dæmis á leiðinni í heimsreisu, á hátíðir um allan heim. Þetta er svona mynd sem á örugglega eftir að trekkja erlenda ferðamenn til landsins,“ segir Friðrik.

„Ég bara trúi ekki að þessi ríkisstjórn fatti það ekki að mjólkurkýr, góðar kýr, verða að lifa og fá að dafna,“ segir Friðrik að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×