Innlent

„Þú ert fallegasta stelpa á jarðríki“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ágúst og Selma hafa verið saman í fimm ár.
Ágúst og Selma hafa verið saman í fimm ár.
„Ég er svo stoltur af þér ástin mín að hafa sett þetta á netið og sýnt hvernig þér líður. Vonandi getur fólk sem gerir svona farið að skilja betur hvernig það er að lenda í einelti. Þú ert fallegasta stelpa á jarðríki, ástin mín.“

Þetta skrifar Ágúst Helgi Jónsson á Facebook-síðu sinni og talar til kærustu sinnar, Selmu Bjarkar, sem af mikilli einlægni skrifaði grein um einelti sem hún hefur lent í frá unga aldri. Ágúst og Selma eru búin að vera kærustupar í fimm ár eða frá því hann var tíu ára og hún ellefu ára.

„Það er langt síðan ég kynntist Selmu og mér hefur aldrei, aldrei fundist þetta vera skrýtið, ljótt eða óvenjulegt. Þegar ég sá hana fyrst sá ég bara venjulega stelpu. Mér hefur alltaf fundist hún sérstök,“ segir Ágúst í færslunni.

Selma er sterkasta stelpa sem ég þekki, skrifar Ágúst meðal annars í stöðufærslu sinni.
Ágúst býr núna í Noregi og er því ekki á landinu þessa dagana til að styðja við bakið á kærustunni. En hann sendir þessa löngu og fallegu kveðju á Facebook-síðunni til að sýna stuðning.

„Svona fólk sem gerir svona hluti á bágt og vill bara fá athygli. Selma er sterkasta manneskja sem ég þekki og ég er ótrúlega heppinn að vera kærastinn hennar. Fyrir mér og öllum þeim sem þekkja Selmu vita að þetta gerir hana bara enn fallegri og sérstaka á besta hátt sem til er. Þegar ég lít á hana finnst mér ég vera heppnasti strákur í öllum heiminum. Ég er svo heppinn að vera „þinn“ og er svo stoltur af þér,“ segir Ágúst að lokum í skilaboðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×