Enski boltinn

Moyes skilaði fyrsta titlinum í hús

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Manchester United vann nokkuð þægilegan 2-0 sigur á Wigan í leiknum um Samfélagsskjöldinn á Wembley í dag. David Moyes hefur því landað sínum fyrsta titli í starfi sem knattspyrnustjóri Mancheser United.

Wigan náði óvænt að leggja nágranna United, Manchester City í bikarúrslitaleiknum á síðasta tímabili þrátt fyrir að falla úr úrvalsdeildinni.

Það var hinsvegar aldrei neitt óvænt í myndinni í dag. Robin Van Persie, markakóngur síðasta tímabils, skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúmlega sex mínútur með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Patrice Evra.

Van Persie skoraði annað mark leiksins þegar tæplega korter var búið af seinni hálfleik. Þá fékk Hollendingurinn boltann við vítateigslínuna en skot hans hrökk af varnarmanni og framhjá Scott Carson í marki Wigan.

United menn fóru aldrei úr öðrum gír í leiknum en unnu nokkuð sannfærandi. Sigurinn var kærkominn eftir brösugt gengi á undirbúningstímabilinu þar sem þeir unnu aðeins tvo leiki af sjö. Þetta var síðasti leikur liðsins áður en deildin byrjar næstu helgi þar sem þeir ferðast til Wales og mæta Swansea í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×