Innlent

Vill þeyta fólki á milli heimshluta í röri

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Elon Musk vonast til að þessi nýi ferðamáti verði orðinn að veruleika innan áratugs.
Elon Musk vonast til að þessi nýi ferðamáti verði orðinn að veruleika innan áratugs. Mynd/AP
Auðkýfingurinn Elon Musk hefur kynnt hugmyndir sínar um ferðir í lofttæmdu röri, sem gætu skilað fólki á milli staða á miklu meiri hraða en til þessa hefur þekkst.

Hann vonast til þess að þetta verði að veruleika innan áratugs.

Hann nefnir þetta Hyperloop, og hugmyndin líkist helst einhverju sem hann las í teiknimyndasögum þegar hann var krakki.

Hugmyndin er sú að fólk setjist inn í hylki sem þeytast í gegnum rörið á milli stórborga. Fyrst á að gera tilraun með þetta á milli San Francisco og Los Angeles. Musk segir að hægt verði að komast þessa leið á rúmum hálftíma, sem er meira en helmingi hraðar en þegar þessi sama leið er farin flugleiðis.

Hugmyndirnar hljóma eins og tómur vísindaskáldskapur, en Musk hefur áður framkvæmt hluti sem ekki virtust raunhæfir.

Hann er einn af stofnendum netgreiðsluþjónustunnar Paypal, rafbílaframleiðandans Tesla og geimflaugafyrirtækisins SpaceX.

Sjá má nánari útskýringar á þessari nýjung á vefsíðu SpaceX.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×