Innlent

Veiðiþjófar gripnir við Laxá í Kjós

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mynd úr safni tekin við Laxá í Kjós sem telst með bestu laxveiðiám landsins.
Mynd úr safni tekin við Laxá í Kjós sem telst með bestu laxveiðiám landsins. Fréttablaðið/Pjetur
Veiðiþjófar voru staðnir að verki við Laxá í Kjós í gær. Frá þessu greinir á vefsíðunni Vötn og veiði. „Þetta voru frekar margir. Um 7-8 saman en þó aðeins með eina stöng,“ sagði Gylfi Gautur Pétursson, umsjónarmaður við Laxá, í samtali við Vísi.

„Það sem er merkilegast í þessu er að þetta var erlendur sendiráðsbíll,“ sagði Gylfi. „Ég verð þó að viðurkenna að ég veit ekkert hvaðan hann var.“ Gylfi sagðist hafa tekið af þeim stöngina og að hann hafi hana hjá sér til þess að atburðurinn endurtaki sig ekki. Veiðiþjófarnir mölduðu í móinn þegar Gylfi greip þá glóðvolga, fjarlægði stöngina og rak þá brott en sagði hann fólkið þó hafa beðist afsökunar í restina.

Hann segir þetta því miður ekki óalgengt. „Íslendingar virðast vita það að þú ert ekkert að þvælast við veiðar í laxveiðiám en útlendingarnir eru ekki nægilega upplýstir. Þetta er mjög slæmt, þetta er viðkvæmt mál,“ útskýrir Gylfi Gautur. En einn dagur við veiðar í Laxá í Kjós kostar áttatíu þúsund krónur.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×