Innlent

Sætta sig ekki við að formaðurinn standi eftir atvinnulaus

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Geislafræðingar standa með formanninum
Geislafræðingar standa með formanninum
„Geislafræðingum finnst vera brotið gegn réttlætiskennd þeirra,“ segir Harpa Dís Birgisdóttir, geislafræðingur og varaformaður félags geislafræðinga. „Við getum ekki sætt okkur við að formaðurinn standi eftir atvinnulaus eftir að við höfum staðið saman í þessum viðræðum sem hafa verið undanfarna mánuði.“

Formanni félags geislafræðinga var sagt upp störfum í vor þegar staða hennar var lögð niður. „Við skiljum ekki af hverju hennar var ekki boðin staða sem geislafræðingur þegar það var verið að auglýsa eftir geislafræðing á sama tíma. Katrín hafði sinnt starfi kerfisgeislafræðings en vann jafnframt hefðbundin störf geislafræðings.“

Eins og fram hefur komið í fréttum Vísis náðist samkomulag í deilunni milli geislafræðinga og Landspítalans 31. júlí síðastliðinn og fengu geislafræðingar allt að 15% launahækkun. 40 geislafræðingar höfðu sagt upp starfssamningum við Landspítalann og nú hafa 23 geislafræðingar dregið uppsögn sína til baka. Hinir sautján vilja ekki hefja störf fyrr en að Katrín fær endurráðningu.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans sagði í viðtali við Morgunblaðið  að Katrínu hefði verið bent á aðrar leiðir til þess að fá vinnu hjá spítalanum. „Ég veit ekki hvað hann er að tala um og Katrín kannast ekki við þetta heldur. Það sem við  viljum er að henni verði boðin staða aftur sem geislafræðingur hjá spítalanum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×