Innlent

Reykjanesbær tekur ekki á móti fleiri hælisleitendum

Hera Ósk Einarsdóttir er staðgengill félagsmálastjóra í Reykjanesbæ.
Hera Ósk Einarsdóttir er staðgengill félagsmálastjóra í Reykjanesbæ. samsett mynd/vilhelm
Innanríkisráðuneytið hefur sent öllum sveitarfélögum landsins bréf þar sem óskað er eftir samstarfi við áhugasöm sveitarfélög um móttöku hælisleitenda, sem Reykjanesbær mun hætta að taka á móti 1. október.

Í bréfi ráðuneytisins segir að vegna aukins fjölda hælisleitenda þurfi að semja við fleiri sveitarfélög en Reykjanesbæ um móttöku hælisleitenda. Bréfið var sent út 10. júlí síðastliðinn, og hafa engin svör borist enn samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu.

Reykjanesbær hefur hingað til tekið á móti öllum hælisleitendum sem koma hingað til lands og er bærinn nú með 151 hælisleitanda á sínum snærum, segir Hera Ósk Einarsdóttir, staðgengill félagsmálastjóra í Reykjanesbæ.

Bæjaryfirvöld höfðu tilkynnt innanríkisráðuneytinu að ekki yrði tekið á móti fleiri flóttamönnum eftir 1. júlí síðastliðinn. Hera segir að fresturinn hafi nú verið framlengdur til 1. október til að gefa ráðuneytinu svigrúm til að endurskipuleggja málaflokkinn.

"Við verðum áfram með þjónustu við hælisleitendur en við getum ekki þjónustað svona marga," segir Hera. Bærinn ráði með góðu móti við á bilinu 50 til 70 hælisleitendur.

"Við höfum lýst okkur reiðubúin til að hýsa hælisleitendur í Reykjavík," segir Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs borgarinnar. Samningaviðræður við innanríkisráðuneytið fóru af stað síðasta haust en hafa litlu skilað hingað til.

Nú virðist kominn skriður á viðræðurnar því innanríkisráðuneytið hefur óskað eftir því að borgin taki við 50 hælisleitendum, segir Anna Kristjánsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar. Talað sé um svipaðan fjölda hjá Reykjanesbæ og tíu til tuttugu hjá öðrum sveitarfélögum.

Anna segir að nú sé beðið eftir næstu skrefum frá ráðuneytinu. Semja þurfi um krónur og aura, auk þess sem ákveða þurfi hvaða verklag eigi að viðhafa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.