Enski boltinn

Reina ósáttur með vinnubrögð Liverpool

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pepe Reina er uppalinn hjá Barcelona.
Pepe Reina er uppalinn hjá Barcelona. Nordicphotos/Getty
Pepe Reina hefur ritað stuðningsmönnum enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool bréf. Þar segist hann hafa viljað framlengja samning sinn við félagið en forráðamenn Liverpool hafi kosið að senda hann á lán til Napólí.

Hjá ítalska félaginu hittir Reina fyrir landa sinn Rafa Benitez sem stýrði á sínum tíma liði Liverpool. Reina segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með vinnubrögð forráðamanna Liverpool sem samþykktu að lána hann án þess að bera það undir hann.

„Ég taldi mig eiga betra skilið þótt ég skilji vel að stundum þurfi að taka erfiðar ákvarðanir í knattspyrnuheiminum."

Reina viðurkennir að hann hefði haft áhuga á að ganga í raðir Barcelona. Gengi það ekki eftir væri hans fyrsti kostur að verja áfram markið hjá Liverpool.

„Ég sagði stjóranum að ég vildi spila með Liverpool og aðeins yfirgefa Anfield ef Barcelona væri möguleiki. Þá ætti ég möguleika á að snúa til míns heima," skrifar Reina. Hann segist hafa heyrt sterkan orðróm um áhuga Barcelona á sér.

„Þegar ekkert boð kom var ég tilbúinn að berjast fyrir sæti mínu í liði Liverpool. Því var ég hissa þegar talið var best fyrir félagið að ég yrði lánaður til Napólí," segir Reina.

Þá þakkar Reina stuðningsmönnum fyrir stuðninginn í gegnum árum og segir félagið það yndislegasta á Englandi.

Bréfið birti Pepe Reina á heimasíðu sinni, www.pepereina25.com, sem virðist ekki aðgengileg á þeim tíma sem fréttin er rituð. Guardian hefur unnið frétt upp úr bréfinu en hana má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×