Innlent

Íslendingar gefi eftir í makríldeilunni

Varaformaður fiskveiðinefndar Evrópuþingsins segir að íslensk stjórnvöld verði að fallast á sáttatilboð Noregs og Evrópusambandsins í makríldeilunni til að komast hjá viðskiptaþvingunum. Hann telur að þvinganirnar brjóti ekki gegn alþjóðlegum viðskiptasamningum en segir að Íslendingum sé frjálst að vísa málinu til dómstóla.

Samningaviðræður um makríl hafa lítinn árangur borið undanfarin ár.

Evrópusambandið hyggst beita refsiaðgerðum til að knýja fram sátt í deilunni.

Struan Stevenson, varaformaður fiskveiðinefndar Evrópuþingsins, segir að Íslendingar hafi sýnt lítinn vilja til að leysa deiluna. Því sé ekki annað í stöðunni en að grípa til viðskiptaþvingana.

Refsiaðgerðirnar munu væntanlega fela í sér löndunarbann á makríl en Stevenson segir að Evrópusambandið geti einnig sett innflutningshömlur á fleiri fisktegundir frá Íslandi þar með talið þorsk. "Við höfum fengið það lögfræðiálit að viðskiptaþvinganir geti náð til alls fisks sem syndir á sama hafsvæði og sá fiskur sem deilt er um," segir Stevenson.

Stevenson telur að viðskiptaþvinganir sé löglegar og í samræmi við alþjóðlega viðskiptasamninga. Íslendingum sé hins vegar frjálst að vísa málinu til dómstóla.

Hann segir að íslensk stjórnvöld verði að fallast á sáttatilboð í makríldeilunni til að komast hjá viðskiptaþvingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×