Innlent

Dregur ályktanir rannsóknarnefndarinnar í efa

Jóhannes Stefánsson skrifar
Ögmundur er ósammála ályktunum rannsóknarnefndarinnar um félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs
Ögmundur er ósammála ályktunum rannsóknarnefndarinnar um félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs GVA
Ögmundur Jónasson, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir ljóst að eftirliti með Íbúðalánasjóði hafi verið ábótavant en hann dregur þó ýmsar ályktanir rannsóknarnefndar sjóðsins í efa.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar hefur leitt í ljós að vanþekking ýmissa starfsmanna, mistök í rekstri hans og pólitísk afskipti af sjóðnum hafa valdið íslenskum skattgreiðendum gríðarlegum búsifjum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundaði í morgun vegna skýrslunnar en Ögmundur Jónasson er formaður nefndarinnar. „Ég myndi orða það þannig að það sé greinilegt að það  hafi verið ýmsar brotalamir í eftirlitskerfi Íbúðalánasjóðs og það hafi verið teknar ýmsar ákvarðanir sem að í besta falli orka mjög tvímælis," segir Ögmundur.

Rannsóknarnefndin mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndina og greindi frá skýrslunni í morgun. Ögmundur hefur efasemdir með ályktanir sem eru dregnar í skýrslunni. „Hvað varðar áherslur nefndarinnar á félagslegt hlutverk íbúðalánasjóðs og samskipti sjóðsins við fjármálakerfið á þeim árum sem eru til umfjöllunar þá hef ég ákveðnar efasemdir um niðurstöðu nefndarinnar."

Málið verður rætt á Alþingi klukkan eitt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×