Innlent

"Það er auðvelt að vita betur í dag"

Eygló Harðardóttir á Alþingi í dag
Eygló Harðardóttir á Alþingi í dag Mynd/Vilhelm
Forystumenn stjórnarflokkanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eru hvorugur á mælendaskrá í sérstakri umræðu um rannsóknarskýrslu Íbúðalánasjóðs á Alþingi í dag.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir skýrsluna harða og óvæga að innihaldi og í samræmi við fyrri rannsóknarskýrslu Alþingis um fall íslensku bankanna, sem Alþingi hafi síðan ályktað um.

„Þar sögðum við að nefndarniðurstöðurnar væru áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu. Þar sögðum við að eftirlitsstofnanir hefðu brugðist - að við öll yrðum að horfa á gagnrýnum augum á eigin verk og nýta tækifærið sem skýrslan gaf til að bæta samfélagið,“ sagði Eygló á Alþingi í dag.

Skýrslan um íbúðalánasjóð ítrekaði þetta, staða sjóðsins yrði ekki skilin frá hruninu. Mesti vandi sjóðsins hafi skapast vegna rangrar uppgreiðsluáætlunar. En skoða þyrfti málið út frá þeim tíðaranda sem ríkti þegar lögum um sjóðinn var breytt fyrir níu árum.

„Þarf ekki nema líta til þeirrar umræðu sem fór fram hér á Alþingi við meðferð frumvarpsins sem samþykkt var í þessum sal fyrir rétt rúmum níu árum mótatkvæðalaust. Þingmenn í stjórnarandstöðu fögnuðu þeim breytingum og sama átti við samtök launafólks, og töluðu báðir gegn gjaldi á uppgreiðslu lántaka sjóðsins. Beðið var með óþreyju að veðhlutföll yrðu hækkuð úr 65 prósent í 90 prósent, og hámarks lánsfjárhæð hækkuðu í 18 milljónum króna úr 9 milljónum króna. Það er auðvelt að vita betur í dag, það er erfiðara að líta um öxl og viðurkenna að stjórnmálamennirnir og Alþingi brugðust líka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×