Innlent

Hanna Birna vill flugvöllinn áfram í Reykjavík

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, sem hefur í mörg ár starfað í bogarmálunum fer ekkert í grafgötur með skoðun sína í máli Reykjavíkurflugvallar.

„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og alltaf sagt að völlurinn eigi að vera áfram í Reykjavík og það er afstaða ríkisstjórnarinnar. En ég treysti því að eiga gott samstarf við Reykjavíkurborg um þetta stóra mál,“ segir Hanna Birna.

Hanna Birna, segist fullviss um að sátt náist á milli ríkis og borgar í málefnum Reykjavíkurflugvallar. Hún er sjálf á þeirri skoðun að völlurinn eigi að vera áfram í Reykavík.

Eins og við sögðum frá í fréttum okkar í gær kemur fram í tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem kynnt verður á fimmtudag að tveimur af þremur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar verði lokað á næstu þremur árum og vellinum síðan endanlega lokað eftir áratug.

Vatnsmýrin er samkvæmt drögum að skipulaginu eitt af þremur lykilsvæðum í uppbyggingu borgarinnar á næstu áratugum og er boðað að 6.900 íbúðir verði í Vatnsmýri, fjórtán þúsund íbúar, tólf þúsund störf og þrír grunnskólar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var á dögunum segir hinsvegar að  framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar verði tryggð í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu, án þess þó að tekin sé bein afstaða til skipulags Vatnsmýrar.

Hanna Birna segist lengi hafa talað fyrir því að sátt í málinu náist á milli ríkis og borgar. „Ég held að það geti allveg tekist. Ég held að þetta þurfi ekkert að stangast á,“ segir Hanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×