Lífið

Hver er þessi Peter?

Jóhannes Stefánsson skrifar
Felix og Peter hressir í Malmö fyrir skemmstu
Felix og Peter hressir í Malmö fyrir skemmstu Mynd/ Úr einkasafni

Peter Fenner er aðstoðarmaður íslenska teymisins í Eurovision og hefur verið nær allar götur síðan hann hitti Björgvin Halldórsson á bar í Dyflinni árið 1995, þegar Björgvin tók þátt í keppninni fyrir Íslands hönd. Peter segir að strax hafi myndast gott samband milli sín og íslenska teymisins og hann hefur fylgt Íslandi í keppninni á einn eða annan hátt síðan.

Peter er frá Englandi og starfar sem þýðandi og landamæravörður. Hann hefur meðal annars nýtt víðfeðma tungumálakunnáttu sína til að aðstoða íslensku keppendurna í tjáskiptum á ferðalögum víða um Evrópu. „Við erum orðin mjög náin," segir Peter um samband sitt við íslenska teymið.

Það er óhætt að segja að Peter sé einhver mesti áhugamaður um Eurovision fyrr og síðar, en hann hefur meira og minna gefið alla sína vinnu í þágu keppninnar og íslenska liðsins í mörg ár. Auk þess að aðstoða íslenska liðið í tengslum við blaðamannafundi og lýsanda keppninnar með ýmisskonar ráðgjöf og staðreyndum um keppnina hefur Peter samið textana við nokkur laganna sem hafa tekið þátt í keppninni.

„Ég samdi enska textann við lag Eiríks Haukssonar árið 2007," segir Peter. Þá hjálpaði hann til við að semja textann við lag Eurobandsins, This is my Life, auk þess að hafa samið franska textann í lagi Heru Bjarkar Je ne sais quoi. Það er því ljóst að Peter Fenner stendur okkur íslendingum nær en margan hefði grunað.

Aðspurður að því hvort honum þætti hann ekki fá heldur litlar eftirtektir miðað við það mikla starf sem hann hefur unnið endurgjaldslaust svo árum skiptir segir Peter: „Það má kannski segja það, en ég er ekkert að leitast eftir því heldur."

Hann segir uppáhalds íslenska Eurovision lagið sitt vera All out of Luck í flutningi Selmu Björnsdóttur, en framlag Páls Óskars Hjálmtýrssonar frá 1997, Minn hinsti dans skipi þó sérstakan sess í hjarta hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.