Innlent

Konur í miklum minnihluta í lögreglunni

Boði Logason skrifar
12,6 prósent starfsmanna lögreglunnar eru konur og 87,4 prósent karlar.
12,6 prósent starfsmanna lögreglunnar eru konur og 87,4 prósent karlar. Mynd/Vísir
Engin kona starfaði sem yfirlögregluþjónn hér á landi á síðasta ári en 23 karlar gegndu því starfi. Þetta kemur fram í ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2012 sem kom út í dag.

Þar kemur einnig fram að 12,6 prósent starfsmanna lögreglunnar eru konur og 87,4 prósent karlar. Á meðal starfandi óbreyttra lögreglumanna eru 86 prósent karlar en 14 prósent konur. Hlutfall kvenna er hæst á meðal lögreglufulltrúa, 21 prósent af starfsstigum lögreglunnar.

Á síðasta ári voru starfsmenn lögreglunnar 759, þar af 96 konur. Flestir störfuðu sem lögreglumenn eða 202 og næst flestir sem varðstjórar, 142. Einungis 9 konur störfuðu sem varðstjórar og 133 karlar. Konur voru því aðeins 6,3 varðstjóra.

Í stöðu aðalvarðstjóra starfaði aðeins 1 kona, á móti 35 körlum. Engin kona starfaði sem aðstoðarvarðstjóri, en 3 karlar. Þá starfaði 1 kona sem aðstoðaryfirlögregluþjónn, en 29 karlar. Engin kona var yfirlögregluþjónn, en 23 karlar.

Í skýrslunni segir að jafnréttisnefnd sé starfræk innan lögreglunnar. Á árlegum fundi í maí síðastliðnum var jafnréttis- og framkvæmdaáætlun lögreglunnar meðal annars endurskoðuð og rætt var um möguleikann á frekara norrænu samstarfi. Í október var haldinn fræðslufundur jafnréttisfulltrúa embætta með jafnréttisnefnd lögreglunnar.

Þá segir einnig í skýrslunni að á árinu hafi eitt formlegt erindi borist til jafnréttisfulltrúa lögreglunnar.

„Hjá embætti ríkislögreglustjóra var á árinu gefin út framkvæmdaáætlun í

jafnréttismálum. Með henni er haldið utan um kyngreindar tölfræðiupplýsingar er

snúa að starfsemi embættisins,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluna má lesa hér.

Tafla um kynjaskiptingu í lögreglunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×