Innlent

Kvikmyndasafnið harðneitar að deila húsnæði með Gaflaraleikhúsinu

Bæjarbíó í Hafnarfirði.
Bæjarbíó í Hafnarfirði.
Erlendur Erlendsson, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, gagnrýnir harðlega ákvörðun menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar, um að ganga til viðræðna við Gaflaraleikhúsið um að samnýta Bæjarbíó í Hafnarfirði þar sem kvikmyndasafnið hefur aðstöðu.

Hann segir í harðorðu bréfi, sem eru viðbrögð hans við tillögum nefndarinnar, að það sé viðbúið að kvikmyndasafnið taki niður búnað sinn og kanni rétt sinn vegna kostnaðar, sem Erlendur segir að safnið hafi lagt í, við uppbyggingarstarf í þágu bíósins og bíómenningarsögunni. Hann segir það ennfremur ekki fara saman að starfrækja kvikmyndasafn og leikhús, enda mikið rask sem fylgir leikhúsinu.

Þá segir hann að safnið hafi bjargað húsnæðinu, sem Erlendur segir að sé það hiklaust talið einstakt í sinni röð á Norðurlöndum, frá þeirri niðurlægingu sem það var komið í eftir margra ára leikhússtarfsemi fyrir aldamótin síðustu. Hann segir þessar hugmyndir ennfremur setja rússnesk/sovéska kvikmyndadagskrá í uppnám en til stóð að halda upp á 70 ára stjórnmálasambands Íslands og Rússlands/Sovétríkjanna með sýningu kvikmynda frá landinu.

Málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í dag og samþykkti meirihluti bæjarráðs, með 2 atkvæðum, að taka undir bókun menningar- og ferðamálanefndar um að fela bæjarstjóra að undirbúa samning við Gaflaraleikhúsið um umsjón og rekstur Bæjarbíós, auk samninga við Leikfélag Hafnarfjarðar og Kvikmyndasafn Íslands um afnot af húsnæðinu til sýningarhalds. Óskar bæjarráð eftir því að drög að samningum liggi fyrir á næsta fundi ráðsins.

Bæjarráð leggur áherslu á að við útfærslu nauðsynlegra endurbóta á húsnæðinu verði eftir fremsta megni tekið tillit til þarfa Kvikmyndasafnsins vegna sýningarhalds þess í húsinu og hugað verði að því að vernda það sem enn telst upprunalegt og hefur sérstakt varðveislugildi.

Þá leggur bæjarráð áherslu á að sett verði fram raunhæf áætlun til næstu þriggja ára um endurbætur og breytingar á húsnæðinu sem miða að því að stuðla að fjölbreyttri menningarstarfsemi í Bæjarbíó.

Sjálfstæðismenn og Eyjólfur Sæmundsson fulltrúi Samfylkingar, sátu hjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×