Innlent

Lögreglan talaði við meintan banamann í gærkvöldi

Fjölbýlishúsið sem um ræðir er við hliðina á húsinu með bláa þakinu.
Fjölbýlishúsið sem um ræðir er við hliðina á húsinu með bláa þakinu.
Karlmaðurinn, sem er grunaður um að hafa myrt karlmann á sjötugsaldrinum, ónáðaði fólk í fjölbýlishúsinu í gærkvöldi með því að banka upp á hjá þeim og biðja um áfengi og tóbak.

Samkvæmt Austurfréttum var lögreglan kölluð á vettvang í gærkvöldi vegna ónæðisins. Enn fremur staðfestir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, að lögreglan hefði talað við manninn um miðnætti.

Hinn látni fannst svo í morgun. Íbúi, sem Austurfréttir ræddi við, varð var við lögreglu og sjúkrabíla á níunda tímanum í morgun.

Þá þegar var ljóst að andlát mannsins bar ekki að með eðlilegum hætti. Karlmaðurinn, sem er grunaður um að hafa orðið manninum að bana, er í haldi lögreglu og er á þrítugsaldri. Hann hefur ekki búið lengi í fjölbýlishúsinu, sem er við Blómvang á Egilsstöðum.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er á vettvangi og svo virðist sem lögreglan sé við rannsóknir í tveimur íbúðum í húsinu.


Tengdar fréttir

Karlmaður handtekinn í tengslum við andlát manns

Karlmaður hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn á andláti manns í fjölbýlishúsi á Egilsstöðum. Þetta staðfestir Jónas Wilhelmsson, lögregluþjónn á Eskifirði í samtali við Vísi. Það var á áttunda tímanum í morgun sem maðurinn hinn látni fannst og fljótlega vöknuðu grunsemdir um að andlát hans hefði ekki borið að með eðlilegum hætti. Lögreglan á Eskifirði nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins. Ekki hefur verið krafist gæsluvarðhalds yfir manninum sem er í haldi.

Lögreglan við rannsókn í tveimur íbúðum

Lögreglan á Eskifirði er nú að störfum í tveimur íbúðum á sitthvorri hæðinni í fjölbýlishúsi við Blómvang á Egilsstöðum, þar sem maður fannst látinn í morgun, en grunur leikur á að andlát hans hafi borið að með voveiflegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×