Innlent

Framkvæmdum á Klapparstíg lýkur í sumar

Verklegar framkvæmdir hófust í morgun við lokaáfanga í endurgerð Klapparstígs.

Í sumar verður kaflinn frá Skúlagötu að Hverfisgötu tekinn í gegn og eftir breytingar verður útlit götunnar með álíka sniði og ofan Hverfisgötu nema litur hellulagnar verður grár.

Allt yfirborð götu og gangstétta verður endurnýjað, ásamt þeim lögnum sem komnar eru á tíma. Gatnamót við Lindargötu verða steinlögð og upphækkuð. Snjóbræðsla verður sett í gönguleiðir og upphækkuð gatnamót.

 

Verkinu í sumar er skipt í minni verkáfanga  til að draga sem mest úr truflun vegna framkvæmda og í morgun var byrjað á svæðinu neðan Lindargötu. Tímasett verkáætlun er  aðgengileg á upplýsingasíðu í Framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar og einnig á verkskilti á vettvangi.

Á verktíma er lögð áhersla á að halda greiðum aðgangi að húsum og það er m.a. gert með því að vinna fyrst á miðkafla götunnar og fara ekki í svæðið næst húsum fyrr en miðkafli götunnar er greiðfær gangandi. Þá eru settar göngubrýr og íbúar og gestir geta gengið á miðjum veginum. 

Íbúar og húseigendur á svæðinu fengu fyrir nokkru síðan kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×