Innlent

Afhjúpuðu styttu af Vilborgu pólfara

Vilborg við hlið styttunnar góðu
Vilborg við hlið styttunnar góðu Mynd/RVK
Margir voru samankomnir í Dalskóla í dag þegar þar var afhjúpuð stytta af pólfaranum Vilborgu Örnu Gissuradóttur.

Listaverkið spratt upp úr vinnu skólabarnanna í samfélagsmiðju um Ísland áður fyrr, Íslendingasögurnar, víkingana og fl. Þá tóku börnin eftir því að þar riðu margar hetjur af karlkyni um héruð en minna fór fyrir konunum.

Þau fóru að velta því fyrir sér hvað gerir manneskju að hetju eða fyrirmynd og hvað einkennir hetjur fyrr og nú.

„Það voru börn í 2. og 3. bekk sem gerðu styttuna sem afhjúpuð var í dag eftir miklar vangaveltur. Þeim þótti fátt um styttur af sterkum og nafntoguðum konum í borginni þeirra og töldu því brýnt að bæta úr því og jafna kynjamuninn. Ákveðið var að gera saman eina stóra og veglega styttu af þekkti konu. Fyrir valinu varð Vilborg pólfari og kom hún í skólann og sagði frá því hvernig hún hafði sett sér markmið og gildi fyrir ferð sína á Suðurpólinn.

Börnunum í Dalskóla þótti Vilborg frábær fyrirmynd og mikil hetja. Hún smitaði þau af metnaði og áhuga fyrir verkefninu. Þau hafa í leiðinni lært heilmikið um hetjuför hennar, hvað áræðni og hugrekki er mikilvægt og að kjarkmiklar konur eru ekki síður fyrirmynd fyrir drengi en stúlkur.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, kom og aðstoðaði börnin við að afhjúpa styttuna af Vilborgu. Vorsólin skein skært í Úlfarsárdal og endurkastaðist frá speglabrotum sem eru í styttunni af pólfaranum og endurljóma hetjudáðinni,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×