Innlent

Eve Online sprengdi utan af sér Hörpuna

Gestum á Eve-fanfest gefst vitaskuld kostur á að spila leikinn en alls eru viðburðir á hátíðinni 105 talsins.
Gestum á Eve-fanfest gefst vitaskuld kostur á að spila leikinn en alls eru viðburðir á hátíðinni 105 talsins. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er frábært. Við erum að koma hingað í fyrsta sinn en mig hefur langað að koma til Íslands frá því að ég byrjaði að spila Eve fyrir fjórum árum. Nú er ég hins vegar loksins búinn að eignast kærustu sem var til í að koma með mér til Íslands þannig að þetta var tækifærið,“ segir Svíinn Holger sem er ásamt Önnu, kærustu sinni, meðal gesta á Evefanfest sem fer fram í Hörpu um helgina.

Það er tölvuleikjaframleiðandinn CCP sem hefur veg og vanda af hátíðinni sem fer fram í níunda sinn í ár. Þá er sérstaklega haldið upp á það í ár að Eve Online-tölvuleikurinn verður tíu ára á þessu ári. Alls eru um 2.000 gestir á hátíðinni en samtals eru spilarar leiksins ríflega 500.000.

Mjög fjölbreytt dagskrá er á hátíðinni en samtals fara fram 105 ólíkir viðburðir á þeim fjórum dögum sem hátíðin stendur. Má í því samhengi nefna að meðal þátttakenda í pallborðsumræðum á hátíðinni verða Paola Antonelli, sýningarstjóri MoMalistasafnsins í New York, og Chris Lewicki, sem hefur unnið að geimferðarannsóknum hjá bandarísku geimferðastofnuninni (NASA). Þá gengu tveir EVE-spilarar í hjónaband á hátíðinni á fimmtudag.

„Stemningin hingað til hefur verið alveg ótrúlega góð. Þetta byrjaði á fimmtudag og stærsti viðburður inn þá var stór kynning á Dust-514, nýja leiknum okkar, sem gekk mjög vel. Síðan hefur allt gengið eins og í sögu þannig að við sem stöndum að hátíðinni erum rosalega ánægð og það sama virðist gilda um gestina,“ segir Eldar Ástþórsson, fjölmiðlafulltrúi CCP. Þá segir Eldar að áhuginn á hátíðinni hafi verið slíkur í ár að Harpa sé ekki nægilega stór til að rúma alla áhugasama gesti.

„Við hættum að selja miða á hátíðina fyrir tveimur mánuðum vegna þess að við höfðum eiginlega ekki pláss fyrir fleiri gesti. Eldborg tekur 1.600 manns í sæti og þar sem við erum með ákveðna viðburði á hátíðinni sem við viljum að allir geti notið þá setur sá sætafjöldi eiginlega efri mörk á mögulegan fjölda gesta. Við verðum því að hugsa fyrirkomulagið á þessu aðeins fyrir næsta ár,“ segir Eldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×