Innlent

Árni Páll svarar fyrir sig

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er hugsi yfir stöðu mála.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er hugsi yfir stöðu mála. Mynd/ Vilhelm.
„Allir mega segja það sem þeir vilja,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um gagnrýni samflokksmanna sinna sem heyrst hefur í dag. Bæði Ólína Þorvarðardóttir og Mörður Árnason sem voru þingmenn Samfylkingarinar en duttu út af þingi í kosningunum hafa gagnrýnt Árna Pál harðlega í dag, meðal annars í skrifum á netinu.

Ólína Þorvarðardóttir skrifaði harðorðan pistil á bloggsíðu sína í gær.  Þar sagði hún Árna Pál hafa ákveðið að skilja sig frá verkum ríkisstjórnarinnar í von um að fá á sig betri ásýnd og um leið hafi forystan yfirgefið þrjú helstu stefnumál kjörtímabilsins, stjórnarskrár- og fiskveiðistjórnunarmálið og ESB viðræðurnar. Undir þetta tekur Mörður og vísar í stofnun Lýðræðisvaktarinnar. Þinglokin hafi verið klaufaleg.

„Ég veit alveg að það verkefni sem ég axlaði er þannig að sumum finnst þeim kannski þurfa að sparka í mig,“ sagði Árni Páll í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. „Það er bara allt í lagi. Það er bara eins og það er en ég get ekki tekið ábyrgð á öllum þeim málum sem þessi ríkisstjórn gaf væntingum um að koma í gegn en tókst ekki. Það gefur augaleið,“ bætti hann við.

Árni Páll sagði að Samfylkingin hefði ekki umboð til þess að hafa forgöngu um myndun ríkisstjórnar. En ef leitað yrði til flokksins um þátttöku í myndun ríkisstjórnar, myndi flokkurinn ekki skorast undan viðræðum um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×