Innlent

Íslenskir sjómenn komust í hann krappan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Litlu mátti muna að illa færi á Föstudaginn langa þegar skip með íslenskri áhöfn sem var á leið frá Kanada til Belgíu með annað skip í brotajárn lenti í aftakaveðri nokkrum dögum eftir brottför.

Togarinn Cape Ballard var með annað skip, Cape Beaver í togi þegar þegar suðvestan stormur skall á. Skipti engum togum að skipið sem fara átti í brotajárn sökk.

Mönnum sem þar voru um borð tókst með naumindum að bjarga um borð í Cape Ballard áður en það hvarf í sæ.

Upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við fréttastofu að Gæslan hafi frétt af málinu eftir sjóslysið en að Kanadíska Strandgæslan hafi veitt aðstoð.

Engin slys urðu blessunarlega á mannskapnum og er von á Cape Ballard til hafnar í Hafnarfirði annað kvöld eða á miðvikudag.

Átta manns munu vera í áhöfn Cape Ballard en óljóst er hve margir voru um borð í Cape Beaver áður en hann sökk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×