Innlent

Óvissustig vegna jarðskjálfta

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra lýsti fyrir stundu yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrynu úti fyrir Norðurlandi.

Hún hófst með sterkum skjálfta upp á 5,5 stig um eitt leitið í nótt með upptökum austur af Grímsey og öðrum upp á 4,3 skömmu síðar.

Óvissustig þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.

Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila, segir á vefsíðu almannavarna.

Búast má við áframhaldandi virkni og að skjálftar finnist á landi, að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur jarðvísindamanns á Veðurstofunni. Skjálftahrinan komi vísindamönnum ekki á óvart.

Ekkert bendir til að þetta sé fyrirboði eldsumbrota.

Skjálftinn í nótt mun vera einn sá snarpasti síðan skjálfti upp á sjö stig varð á þessum slóðum fyrir rúmlega einni öld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.