Innlent

Segir skipulagt vændi á Íslandi

Steinunn Gyða fyrir miðju að skoða nýútkomna skýrslu Stígamóta.
Steinunn Gyða fyrir miðju að skoða nýútkomna skýrslu Stígamóta.
Alls leituðu 20 konur í Kristínarhús á síðasta ári samkvæmt ársskýrslu Stígamóta sem var kynnt í morgun. Þar af voru ellefu íslenskar konur. Steinunn Gyða Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kristínarhúss, sagði á fundinum í morgun að þær fyndu fyrir vísi að skipulögðu vændi hér á landi.

Kristínarhús er sérstaklega hugsað fyrir konur á leið úr vændi og/eða mansali.

Ellefu íslenskar konur dvöldu í Kristínarhúsi en hinar eru frá Austur-Evrópu og Afríku. Níu börn fylgdu konunum, sem Steinunn segir að hafi komið þeim dálítið á óvart. „Það kemur raunar ekki á óvart að börn fylgi konum, heldur hversu mörg þau voru," sagði Steinunn. Eitt barn fæddist einni í Kristínarhúsi og segir Steinunn að almenningur hafi verið gríðarlega hjálpsamur þegar leitað var eftir aðstoð. „Við gætum líklega opnað barnafatabúð eins og lagerstaðan er núna," sagði hún.

Steinunn gagnrýndi einnig fjölmiðla og sagði þá oft ræða við „vélhjólasamtök, klámkónga, glæpakónga og handrukkara" en þeir sömu stæðu oft á bak við ofbeldið sem konurnar höfðu lent í áður en þær leituðu sér hjálpar í Kristínarhús.

Hún sagði konur oft þurfa á vernd að halda af hálfu lögreglunnar gagnvart þessum sömu aðilum. Langflestar konurnar væru fórnarlömb mansals og vændis að sögn Steinunnar.

Spurð hvort hún fyndi fyrir skipulögðu vændi hér á landi, svaraði Steinunn: „Algjörlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×