Innlent

Sprautufíkill dæmdur: „Viljið þið fá einhvern kokkteil í ykkur frá okkur“

Átökin áttu sér stað í húsakynnum Hjálpræðishersins.
Átökin áttu sér stað í húsakynnum Hjálpræðishersins.
Tuttugu og þriggja ára gömul kona var dæmd í fimmtán mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir þjófnað, umferðalagabrot og brot gegn valdstjórn. Konan, sem er sprautufíkill, fór ásamt öðrum manni inn í forstofu Hjálpræðishersins í byrjun janúar. Þar hreiðruðu þau um sig og ætluðu að gista þar næturlangt.

Húsvörðurinn ræddi við þau og sá þá strax að þau voru undir áhrifum vímuefna. Karlmaðurinn var ógnandi í framkomu sem varð til þess að húsvörðurinn hringdi á lögregluna.

Þegar lögreglan kom á vettvang var parið mjög æst. Konan sagði þá við lögreglumennina: „Viljið þið að ég stingi ykkur með nál." Konan dró upp blóðuga sprautunál og bætti við: „Viljið þið fá einhvern kokkteil í ykkur frá okkur".

Einn lögreglumannanna sagði fyrir dómi að sér hafi ekki staðið á sama, enda virtust þau óútreiknanleg. Maðurinn tók upp sprautunálar úr vasa sínum og sagði lögreglunni að þau væru sprautufíklar.

Lögreglan yfirbugaði svo parið eftir að liðsauki kom á svæðið. Parið sýndi mikinn mótþróa. Konan hefur fjórum sinnum verið dæmd fyrir hegningarlagabrot síðan árið 2010. Með þessu broti rauf hún skilorð og er dómurinn því óskilorðsbundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×