Innlent

Fimmtíu ára bið á enda

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tekur skóflustungu að fangelsinu.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tekur skóflustungu að fangelsinu. Mynd/ GVA.
„Fimmtíu ára bið er lokið," sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að nýju fangelsi á Hólmsheiði. Jarðvegsframkvæmdir hefjast í næstu viku en útboð vegna byggingarinnar sjálfrar fer fram í vor. Taka á fangelsið í notkun haustið 2015.

Nýja fangelsið verður með 56 fangarýmun þar sem verður sérstök deild fyrir kvenfanga og aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Nýja fangelsið á að leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík og fangelsið í Kópavogi. Einnig verður gæsluvarðhaldsdeild í fangelsinu á Litla Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun.

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði mun marka tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi, segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. Síðasta sérsmíðaða fangelsið á Íslandi, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var reist og tekið í gagnið árið 1875, fyrir tæplega 140 árum síðan. Fangelsið á Litla Hrauni var upphaflega byggt sem Sjúkrahús Suðurlands en hætt var við þau áform. Landsstjórnin keypti bygginguna árið 1929 og breytti í fangelsi eða „letigarð fyrir slæpingja og landshornamenn" eins og lesa má um í þingskjölum þess tíma.

Í ríflega hálfa öld hefur staðið til að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu en um 1960 var Valdimar Stefánssyni sakadómara falið að gera tillögur að nýju fangelsi við Úlfarsá en þau áform dagaði uppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×