Innlent

Opið á flestum skíðasvæðum

Skíðasvæði eru víða opin í dag, Páskadag.

Gott færi og mikill snjór er í Tindastól og opið frá 10 til 16, á skíðasvæði Dalvíkur eru aðstæður eins og best verður á kosið og einnig opið milli 10 og 16. Í Stafdal er Skíðadagur fjölskyldunnar og boðið verður upp á páskaeggjaleit fyrir yngri kynslóðina. Hefst hún klukkan tólf en opið er í Stafdal frá 10 til 16.

Á skíðasvæði Siglufjarðar er gott færi og opið frá 10 til 16 og þá er sparifatadagur og páskaeggjamót í Oddskarði. Þar er opið frá 10 til 17.

Í Hlíðarfjalli er opið frá 9 til 16 og þar hefst skíðamót frambjóðenda í norðausturkjördæmi til alþingiskosninganna núna í vor klukkan tvö. Þá er hvasst í Bláfjöllum en opið milli 11 og 17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×