Innlent

Borgin afsali sér höfuðborgartitlinum

Aðaldalsflugvöllur. Þingeyingar vilja áfram geta flogið til Reykjavíkur.
Aðaldalsflugvöllur. Þingeyingar vilja áfram geta flogið til Reykjavíkur. Mynd/Vilhelm.
"Sé það vilji borgaryfirvalda að loka flugvellinum og hunsa þannig vilja þjóðarinnar er spurning hvort borgarstjórn eigi ekki að ganga alla leið og afsala sér höfuðborgartitlinum."

Svo segir í ályktun Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga, þar sem ítrekuð er áskorun til borgarstjórnar og skipulagsyfirvalda í Reykjavík að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Framsýn segir að tryggja verði tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins.

"Ljóst er að flugvöllurinn gegnir veigamiklu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar, ekki síst er varðar aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að hátæknisjúkrahúsum. Líflínan liggur í gegnum flugvöllinn.

Samkomulag ríkistjórnarinnar og borgaryfirvalda um að reisa byggð í Vatnsmýrinni er fyrsta skrefið í að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Almannahagsmunir krefjast þess að friður skapist um flugvöllinn í stað þeirrar miklu óvissu sem verið hefur um framtíð vallarins samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar.

Í gegnum tíðina hefur verið byggð upp opinber þjónusta á höfuðborgarsvæðinu fyrir almannafé, ekki síst af landsbyggðinni. Borgarstjórn Reykjavíkur ber skylda til að veita íbúum landsbyggðarinnar aðgengi að þjónustunni með sem bestum hætti. Lokun flugvallarins í Vatnsmýrinni er ekki leiðin til þess," segir stéttarfélag Þingeyinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×