Innlent

Dæmd fyrir manndráp af gáleysi - ók á sex ára telpu við sumarbústað

Sænsk kona var dæmd í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í dag fyrir manndráp af gáleysi.

Konan var ákærð fyrir að aka á sex ára gamla telpu við sumarbústað í Rangárþingi ytra í ágúst árið 2011 með þeim afleiðingum að hún féll í götuna, hlaut við það mikla höfuðáverka og lést nokkrum klukkutímum síðar.

Konan var dæmd fyrir að sýna ekki nægilega aðgæslu þegar telpan var stödd í mikilli nálægð við bifreiðina. Dómurinn telur að konan hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Þá segir að hinar þungbæru afleiðingar slyssins hafi haft veruleg áhrif á andlega líðan konunnar sem hafi notið aðstoðar sérfræðinga í kjölfarið.

Auk fangelsisdómsins þarf hún að greiða móður telpunnar 2,3 milljónir króna í miskabætur.

Lesa má dóminn hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×