Innlent

Dæmd til að greiða Arion banka 5 milljónir vegna húsaleigu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness um að Helgu Daníelsdóttur ber að greiða Arion banka og sjóði á vegum Stefnis, dótturfélags Arion banka, fimm og hálfa milljón vegna vangoldinnar leigu á íbúðahúsnæði á tímabilinu 2. desember 2009 til 6. apríl 2011.

Helga bjó, ásamt Sævari Jónssyni eiginmanni sínum, í Súlunesi í Garðabæ. Upphaflega áttu þau húsið en seldu það svo eignarhaldsfélagi Sævars. Húsið er svo selt nauðungarsölu eftir að eignarhaldsfélag Sævars eignast það. Hjónin bjuggu hins vegar áfram í húsinu, en fram kom fyrir Héraðsdómi Reykjaness að lögmaður Sævars hefði óskað eftir því við lögmann Arion banka að þau fengu að búa þar áfram.

Helga bar aftur á móti fyrir dómi að hún hafi verið í þeirri trú að hún mætti búa endurgjaldslaust í húsnæðinu samkvæmt viðauka við kaupsamning á milli sín, Sævars og eignarhaldsfélags hans. Þá kvaðst hún aldrei hafa verið krafin um leigugreiðslur og samningaumleitanir Sævars við lögmenn stefnanda hafi verið án hennar vitundar.

Í niðurstöðu sinni vísar Hæstiréttur til 69. gr. hjúskaparlaga þar sem segir að hvoru hjóna sé meðan sambúð varir heimilt að gera samning gagnvart þriðja aðila sem teljast venjulegir vegna sameiginlegs heimilishalds. Er sérstaklega tekið fram að þetta gildi einnig um leigu húsnæðis sem ætlað er til sameiginlegs heimilis hjónanna. Teljast slíkir samningar venjulegast gerðir á ábyrgð beggja hjóna.

Þá vísar dómurinn til þess að Helga og fjölskylda hennar bjuggu í húsinu, sem er að Súlunesi 16, þann tíma sem deilt er um. Það skipti því engu máli sú viðbára hennar að hún hafi verið grandlaus um samskipti eiginmanns síns við Arion banka og ekki komið að samningum um afnot af fasteigninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×