Handbolti

Leikmaður ÍBV fékk ekki landvistarleyfi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ivana Mladenovic í leik með ÍBV í vetur.
Ivana Mladenovic í leik með ÍBV í vetur. Mynd/Vilhelm
Ivana Mladenovic hefur líklega spilað sinn síðasta leik með handboltaliði ÍBV hér á landi, þar sem landvistarleyfi hennar er útrunnið.

Mladenovic hefur í raun verið hér á landi sem ferðamaður en hún hefur spilað alla nítján leiki ÍBV í N1-deild kvenna til þessa og skoraði til að mynda fimm mörk þegar að ÍBV tapaði fyrir Val, 27-19, í undanúrslitum Símabikars kvenna á laugardaginn.

„Hún fór úr landi í morgun," sagði Sindri Ólafsson, formaður handknattleiksdeildar ÍBV, við Vísi. „Við erum frekar svartsýnir á að þetta muni leysast, þó svo að við séum ekki hættir að vinna í þessum málum."

Sindri segir að það hafi verið allt í senn yfirsjón, misskilningur og klúður sem búi að baki þessu máli - sem og hertari reglur hjá Vinnumálastofnun.

„Ivana fór úr landi fyrir viku síðan og við reyndum þá að fá öll þessi mál á hreint, áður en kom að leiknum í bikarkeppninni. En það gekk ekki og Ivana fékk að koma aftur inn í landið til að taka saman sínar föggur."

Sindri segir að Mladenovic hafi verið hér á landi undir sömu formerkjum og aðrir erlendir leikmenn liðsins undanfarin ár. „Ég er nokkuð nýr í þessu starfi en það er minn skilningur. Það eigi við um fleiri lið en ÍBV."

Hann segir að handknattleiksdeild ÍBV hafi ekki gefist upp. „Við erum ekki búnir að gefa upp alla von en við erum ekki bjartsýnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×