Innlent

Frábær spá - öll skíðasvæðin opin

Það er spáð frábæru veðri í dag.
Það er spáð frábæru veðri í dag.
Opið er í helstu skíðabrekkum landsins í dag enda rjómablíða víðast hvar. Opið er í Hlíðarfjalli frá klukkan 10:00 til klukkan 16:00. Núna um helgina er Telemark festival og í dag eftir lokun og til kl. 18:00 verður sungið og dansað við skíðahótelið á Akureyri að því er fram kemur í tilkynningu frá forsvarsmönnum skíðasvæðisins. Það snjóaði í gær og í nótt á Akureyri og því eru staðarhaldarar bjartsýnir á góða helgi.

Þá verður einnig opið í Bláfjöllum í dag til klukkan fimm. Þar er átta stiga frost, logn og heiðskýrt. Snjórinn er troðinn og færið frábært að sögn staðarhaldara.

Það verður síðan snjóbrettamót í jaðri Norðurleiðar í dag, en það hófst klukkan tíu. Þá er skíðamót í Kóngsgili sem hófst einnig uppúr klukkan tíu.

Göngubraut inní Kerlingardal hefur verið lögð, sem er sirka 12 kílómetrar.

Einnig er opið á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar. Í Tungudal er opið frá 11:00 – 17:00 og á Seljalandsdal frá kl 11:00. Gott færi og veður, hiti -4°C, Logn og útlit fyrir bjartan dag.

Svo verður opið í dag í Böggvisstaðafjalli á Dalvík frá kl. 10:00-17:00. Aðstæður eru frábærar og stefnir í flott veður að sögn staðarhaldara.

Færðin er einnig þokkaleg, en ágætt að hafa varann á, enda nokkuð um hálku.

Á Vesturlandi er hálka á Fróðárheiði og Svínadal en hálkublettir á flestum öðrum fjallvegum og á einstaka stað á láglendi.

Víða er nokkur hálka eða hálkublettir á Vestfjörðum, einkum á heiðum og hálsum en þó er snjóþekja á Þröskuldum og Dynjandisheiði. Þungfært er norður í Árneshrepp.

Lítil hálka er á vestanverðu Norðurlandi en þó er snjóþekja er yst á Siglufjarðarvegi. Á Norðausturlandi er aftur á móti víða snjóþekja, hálka eða hálkublettir. Snjóþekja og éljagangur er í Víkurskarði og áfram snjóþekja á vegum þar fyrir austan. Hálka er á Hólaheiði og Brekknaheiði.

Á Austurlandi er snjóþekja á Háreksstaðaleið, Jökuldal, Út- Héraði og Fjarðarheiði en þar er einnig skafrenningur. Hálkublettir og skafrenningur er á Fagradal og hálka og éljagangur á Oddskarði. Ófært er á Vatnsskarði eystra. Vegir eru annars auðir frá Reyðarfirði og áfram með Suðausturströndinni.

Hægt er að nálgast veðurspána á vef Veðurstofu Íslands hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×