Innlent

Saltpækli úðað á götur borgarinnar

Uppspretta svifryks í dag er meðal annars frá ösku frá svæðinu í kringum Grímsvötn sem barst til höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu um daginn.
Uppspretta svifryks í dag er meðal annars frá ösku frá svæðinu í kringum Grímsvötn sem barst til höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu um daginn. Mynd úr safni.
Styrkur svifryks er yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í dag.

Hálftímagildi svifryks við mælistöðina á Grensásvegi var klukkan tíu 295,4 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhrings heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Næstu daga er búist við að þurrviðri og vindur geti þyrlað upp ryki af þurri jörðu og valdið rykmengun.

Uppspretta svifryks í dag er meðal annars frá ösku frá svæðinu í kringum Grímsvötn sem barst til höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu um daginn. Askan hefur enn ekki náð að skolast burt.

Guðjóna Björk Sigurðardóttir, skrifstofustjóri yfir rekstri borgarlandsins, segir standa til að úða saltpækli á helstu umferðargötur borgarinnar í nótt.

„Við getum ekki þvegið göturnar vegna þess að það er of kalt úti og við getum ekki sópað þær heldur því það er of mikill vindur. Við ætlum að prófa að dreifa saltpækli á meginstofnbrautir borgarinnar og vonast til að það haldi niðri rykinu. Pækillinn frýs ekki en hann bleytir upp í rykinu, en það er að myndast sérstaklega úti í gangstéttarköntunum og uppi á gangstéttarbrúnunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×