Innlent

Vill kjósa um ESB samhliða alþingiskosningunum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, vill að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, samhliða alþingiskosningunum 27. apríl næstkomandi.

Þorgerður Katrín lagði fram þingályktunartillögu þess efnis í dag. Vill þingkonan að í kjöklefanum verði eftirfarandi spurning einnig lögð fyrir kjósendur.

„Vilt þú að Ísland haldi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að aðildarsamningur verði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?" Og valmöguleikarnir „Já" og „Nei" verði í boði.

Í greinargerð með tillögunni segir að formlegar aðildarviðræður hafi nú staðið yfir frá því í júní aríð 2010. Þær hafi gengið hægar en áætlað var í upphafi og að núverandi ríkisstjórn hafi hægt á viðræðunum fram yfir kosningar hinn 27. apríl næstkomandi.

„Þær verða vart hafnar af fullum krafti nema skýrt umboð fáist til þess. Ekki hefur komið fram nein efnisleg gagnrýni á niðurstöður í þeim samningsköflum sem þegar liggja fyrir. Skoðanakannanir benda til þess að meiri hluti Íslendinga vilji ljúka viðræðunum en mikilvægt er að þeir sem myndi komandi ríkisstjórn hafi skýrt umboð. Best er að það umboð komi milliliðalaust frá þjóðinni, enda hafa jafnvel landsfundir eða flokksþing flokka sem ekki styðja aðild lýst því yfir að þjóðaratkvæðagreiðslu sé þörf um málið," segir meðal annars í greinargerðinni.

Lesa má greinargerðina í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×