Innlent

"Eru ekki allir dagar konudagar?“

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sagðist vilja leggja niður konudaginn í viðtali við Dagblaðið Vísi árið 1982.

Í tilefni konudagsins voru alþingismenn og aðrir landsþekktir karlmenn spurðir út í sína afstöðu til dagsins fyrir 31 ári. Aðrir sem sögðu skoðun sína voru alþingismaðurinn Albert Guðmundsson, Friðjón Þórðarson dómsmálaraðherra og Pálmi Jónsson, landbúnaðarráðherra.

„Ég kem að sjálfsögðu heim með blóm, eins og ég er vanur. Svo förum við sennilega út að borða," segir Albert heitinn Guðmundsson aðspurður hvað hann ætli að gera á konudaginn.

„Hvað segirðu er konudagurinn á morgun? Ja, ætli ég gefi konunni ekki blóm, ég er vanur því enda vil ég halda við þessum gömlu venjum," segir Friðjón Þórðarson, dómsmálaráðherra.

Hann var ekki sá eini sem hafði gleymt konudeginum.

Albert Guðmundsson smellir kossi á Brynhildi konu sína við gott tilefni.
„Hvenær er konudagurinn? Á morgun, já ætli ég færi ekki konunni blóm, ég á von á því," segir Pálmi Jónsson, landbúnaðarráðherra.

Alþingismaðurinn Magnús Magnússon var ekkert sérstaklega spenntur fyrir deginum.

„Jæja, er konudagurinn á morgun? Það stafar sennilega af engu öðru en hugsunarleysi, en ég er ekki vanur að hafa neitt tilstand á þessum degi. En fyrst þú minnir mig á þetta getur vel verið að ég gefi konunni blóm."

Forseti Ísland og þáverandi alþingismaður, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, var nokkuð afdráttarlaus í afstöðu sinni.

„Eru ekki allir dagar konurdagar? Annars finnst mér að eigi að leggja þetta niður, enda arfleifð frá þeim tíma er hlutverk konunnar var allt annað en í dag. Allavega ætla ég ekki að bjóða minni út að borða eða færa henni blóm á morgun. Mér finnst það enga þýðingu hafa," sagði Ólafur Ragnar.

Konudagurinn er á morgun. Hann er fyrsti dagur Góu, sem er sunnudagurinn í 8. viku vetrar. Rétt eins og fyrsti dagurinn í Þorra er bóndadagurinn. Þann dag minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með því að fagna Góu, sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn. Konudaginn ber ávallt upp á sunnudag.

Umfjöllunina í Vísi má sjá á Tímarit.is.

Ummælin voru rifjuð upp í útvarpsþætti Kristjáns Inga og Óskar Gunnars á FM957 í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×