Innlent

Stefna á að starfrækja fljótandi spilavíti við Íslandsstrendur

Skemmtiferðaskip við Íslandsstrendur. Myndin er úr safni.
Skemmtiferðaskip við Íslandsstrendur. Myndin er úr safni.
„Við sjáum tækifæri í sjóferðamennsku sem fer mjög vaxandi í heiminum," segir Þórir Garðarsson, markaðsstjóri ferðafyrirtækisins Iceland Excursion, en fyrirtækið stefnir á samstarf við skemmtiferðaskip skráð erlendis sem væri hægt að nýta til skemmtiferðasiglinga um íslandsstrendur.

Helstu kostir hugmyndarinnar að mati Þóris eru þær að samkvæmt nýlegum breytingum á tollalögum eru skemmtiferðaskip undanþegin virðisaukaskatti og öllum öðrum gjöldum. „Sem gerir hugmyndina mjög raunhæfa," bætir hann við.

Ekki nóg með það heldur verður mögulegt að starfrækja tollfrjálsa sölu um borð í skipunum, spilavíti og næturklúbba. Allt þetta yrði óháð íslenskum lögum þar sem skipin væru skráð á erlendri grundu.

„Við erum ekki tilbúnir að gefa upp hvaða fyrirtæki við erum að semja við," segir Þórir spurður hvaða fyrirtæki þeir hyggist semja við um siglingar hér á landi. Spurður hvort það standi ekki örugglega til þess að hefja slíka starfsemi hér á landi, svarar Þórir: „Jújú, ekki spurning."

Iceland Excursion segir í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í morgun að ýmsar stærðir skemmtiferðaskipa koma til greina, allt frá litlum 120 farþega skipum yfir í 1.500 til 2.000 farþega skip. Þórir segir að þetta verði ágæt viðbót við þá fjölbreyttu flóru sem finna má í ferðaiðnaði hér á landi. Þá skemmir ekki fyrir, að hans mati, að Íslendingar geti nýtt sér þessar „fljótandi skattaparadísir" eins og hann orðar það, en tollfrjáls varningur ætti að höfða til Íslendinganna að mati Þóris.

Aðspurður hvort þetta gangi ekki gegn anda laganna, sem voru líklega ekki hugsuð með það í huga að flytja inn fljótandi spilavíti og næturklúbba, svarar Þórir að svona séu lögin. Það sé í raun ekki mikið flóknara en það.

Stefnt er á að hefja starfsemi sumarið 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×