Innlent

Hjúkrunarfræðingar farnir að draga uppsagnir til baka

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum eru farnir að draga uppsagnir sínar til baka eftir að nýr stofnanasamningur var undirritaður í fyrrakvöld. Þeir hafa frest til miðnættis til að gera upp hug sinn vilji þeir fá allt að sextíu þúsund króna álagsgreiðslu.

Samningurinn var kynntur fyrir hjúkrunarfræðingum á fjölmennum fundum í gær. Hann felur í sér fimm til tæplega tíu prósenta launahækkun mismunandi eftir menntun og reynslu auk þess sem spítalinn greiðir þeim hjúkrunarfræðingum sem eru með ótímabundna ráðningu allt að þrjátíu þúsund króna álagsgreiðslu afturvirkt í tvo mánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá Ernu Einarsdóttur starfsmannastjóra spítalans hafa einhverjir hjúkrunarfræðingar af þeim tæplega þrjú hundruð sem sagt höfðu upp nú þegar dregið uppsagnir sínar til baka en hún vissi ekki nákvæmlega hversu margir þar sem það er gert innan hverrar deildar fyrir sig. Spítalinn hefur óskað eftir að hjúkrunarfræðingar láti vita fyrir miðnætti í dag en Erna bjóst við að einhverjir myndu taki sér lengri umhugsunarfrest, en þá missa þeir af þessarri svokölluðu álagsgreiðslu.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagðist vonast til þess að hjúkrunarfræðingar muni draga uppsagnir sínar til baka í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun en Einar K Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði hann hvort þessi samningur væri fordæmi fyrir stofnanasamninga annarra stétta, en spítalinn þurfti sjálfir að leggja til rúmar 200 milljónir í þennan samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×