Innlent

VÍS er óheimilt að nota upplýsingar um meint tryggingasvik

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skjáskot af vef VÍS.
Skjáskot af vef VÍS.
Tryggingafélaginu VÍS er óheimilt að nota upplýsingar sem félaginu barst um meint tryggingasvik viðskiptavinar síns. Þetta er niðurstaða Persónuverndar sem barst kvörtun frá hinum meinta svikara. Persónuvernd segir jafnframt, í úrskurði, að ef maðurinn sem ásökunin beinist gegn krefjist þess að VÍS eyði upplýsingunum þá sé félaginu skylt að verða við því. Í ábendingu sem VÍS barst í gegnum svokallaðan svikahnapp á vefsíðu VÍS segir að hinn meinti svikari hafi dottið af bifhjóli þegar hann ók því próflaus. Hann segi hins vegar sjálfur að hann hafi dottið úr vinnuvél vegna þess að hann hafi verið próflaus.

Fram kemur í kvörtun til Persónuverndar að VÍS hafi kært hin meintu svik til lögreglu í nóvember 2010. Lögreglan hafi aftur á móti lokið rannsókn málsins án þess að til ákæru kæmi. Þá kom líka fram að hinn meinti svikari hafi krafist þess að lögreglan rannsakaði hver hefði sent ábendinguna inn á vefsíðu VÍS.

Persónuvernd gaf VÍS færi á að svara kvörtuninni en tryggingafélagið segir að ekkert bendi til þess að upplýsingar frá umræddu vitni séu rangar. Rannsókn lögreglu og VÍS styði vitnisburð þess. Rannsóknarhagsmunir hafi valdið því að kvartandi hafi ekki verið upplýstur um vinnslu persónuupplýsinga um sig og hafi ferlið verið gagnsætt. Þessu hafnar hinn meinti svikari algjörlega. Hann segir að hann og umrætt vitni séu óvildarmenn vegna deilna þeirra í millum. Þá hafi vitnið átt í miklmu viðskiptum við VÍS og hafi haft mikla hagsmuni af að ekki komist upp að vitnisburður þess sé rangur.

Í niðurstöðu Persónuverndar segir að fyrir liggi að kvartandi krefjist eyðingar allra gagna um umrædda ábendingu en banns við notkun þeirra fram að því. Fyrir eyðingu verði gögnin hins vegar afhent honum, en af kvörtun verði ráðið að í því felist m.a. að upplýst verði um nafn þess sem sendi ábendinguna eða þá IP-tölu sem henni fylgdi. Fram komi í skýringum VÍS að félagið hafi ekki nafnið undir höndum. Svo að komast megi að nafni umrædds einstaklings þurfi rannsókn á tölvusamskiptum sem teljast verði þess eðlis að aðeins lögregla geti haft hana með höndum. Vinnslu IP-tölu til að komast að umræddu nafni verði að tilheyra slíkri lögreglurannsókn. Persónuvernd geti því hvorki mælt fyrir um að upplýst verði um nafn viðkomandi né heldur þá IP-tölu sem fylgdi ábendingunni. Hvað varðar kröfu um afhendingu gagna um ábendinguna að öðru leyti liggur ekki annað fyrir en að eingöngu sé um að ræða ábendinguna sjálfa. Hana hafi kvartandi þegar undir höndum og þurfi því ekki að verða við kröfu um að afhent verði gögn um ábendinguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×