Engar uppsagnir eru yfirvofandi hjá slitastjórnum Glitnis og LBI (gamla Landsbankanum). Þetta fékkst staðfest hjá fulltrúum beggja slitastjórna í dag.
Átta var sagt upp störfum hjá slitastjórn Kaupþings í vikunni líkt og fjallað var um á Vísi fyrr í dag. Fréttastofa tók stöðuna á slitastjórnum LBI og Glitnis.
„Það eru engar uppsagnir í gangi hjá Glitni," segir Steinunn Guðjbartsdóttir, hjá slitastjórn Glitnis. Hún segir þó að eftir því sem verkefni dragist saman eða klárist muni það auðvitað hafa áhrif á fjölda starfsmanna.
„Það gera sér allir grein fyrir því að Glitnir er í slitameðferð. Það gengur mjög vel að koma eignum í verð og annað slíkt. Eftir því sem að tíminn líður er það eðli slitanna að starfsemi dregst saman. Það er verið að vinna niður eignasafnið, koma eignum í verð og klára þetta," segir Steinunn.
Páll Benediktsson, talsmaður slitastjórnar LBI, tók í svipaðan streng.
„Það hafa ekki verið neinar sérstakar uppsagnir hjá okkur. Starfsfólki hefur heldur fækkað á undanförnum misserum og þá vegna þess að fólk hefurfarið í önnur störf og ekki verið ráðið í staðinn."
Eftir uppsagnir starfa um 70 manns hjá slitastjórn Kaupþings, um 40 hjá slitastjórn Glitnis en starfsmenn slitastjórnar LBI eru á bilinu 65-70. Þar af starfa 12-14 í Bretlandi og þrír í Hollandi.
Engar uppsagnir yfirvofandi hjá Glitni og LBI

Tengdar fréttir

Átta sagt upp hjá slitastjórn Kaupþings
Átta starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum hjá slitastjórn Kaupþings. Feldís Lilja Óskarsdóttir, sem sæti á í slitasjórn, staðfesti þetta í samtali við Vísi í dag.