Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Jarðborana, staðfesti í samtali við Vísi að fólkinu hefði verið sagt upp um mánaðarmótin. Þær taka gildi mánaðarmótin apríl/maí en þá eru áætluð verklok hjá bornum Þór.
„Eins og staðan er í dag eru engin verkefni fyrir hendi," segir Bjarni. Hann minnir á að þrír mánuðir séu til stefnu til þess að afla verkefna.
„Við erum á fullu að leita að verkefnum og hóflega bjartsýnir á að það takist," segir Baldvin.
Áhöfn Þórs telur um 28 manns en 19 þeirra missa vinnuna eftir tæpa þrjá mánuði takist ekki að afla frekari verkefna. Starfsmennirnir 19 voru ekki allir með þriggja mánaða uppsagnarfrest en fá þó allir vinnu út apríl.

Um 140 manns starfa hjá Jarðborunum en fyrirtækið sinnir meðal annars verkefnum í karabíska hafinu og Nýja-Sjálandi. Borinn Þór hefur verið við borun fyrir HS Orku á Reykjanesi. Allir þeir sem sagt var upp störfum eru Íslendingar.
Baldvin segir ekki gert ráð fyrir frekari uppsögnum að svo stöddu.