Innlent

Stjórnarandstaðan ekki heyrt af breytingum í stjórnarskrármálinu

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Úr sal Alþingis
Úr sal Alþingis
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki heyrt af stefnubreytingu í stjórnarskrármálinu hjá stjórnarflokkunum. Þingmaður hreyfingarinnar segist ekki trúa því að verið sé að falla frá heildarendurskoðun á stjórnskipunarlögum.

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá því að þingmenn stjórnarmeirihlutans séu tilbúnir að gera sátt í stjórnarskrármálinu að því leyti að kaflar stjórnarskrárfrumvarpsins sem eru óumdeildir verði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár en þeir sem mestu átökin eru um fari ekki í gegn. Sama er upp á teningnum í umfjöllun Morgunblaðsins í dag en þar segir að búið sé að taka ákvörðun um þetta í herbúðum stjórnarflokkanna.

Frumvarpið bíður nú annarrar umræðu í þinginu en er ekki komið á dagskrá fyrir næsta þingfund á mánudag. Nýtt kvótafrumvarp verður þá hins vegar til umræðu og telja þeir þingmenn sem fréttastofa ræddi við í morgun að það væri til þess að koma því frumvarpi til nefndar áður en farið verður í áframhaldandi umræðu um stjórnarskránna.

Margrét Tryggvadóttir þingmaður hreyfingarinnar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hún trúi því ekki að búið sé að hætta við heildarendurskoðun á stjórnarskránni og þeir stjórnarliðar sem hún hafi rætt við kannist ekki við það og hún trúi því að málið verði á dagskrá síðar í næstu viku.

Aðrir þingmenn innan stjórnarandstöðunnar kannast heldur ekki við þessar breytingar og segja þeir tímann vera að renna út en einungis fimmtán þingfundardagar eru eftir á yfirstandandi þingi og þó svo að einungis eigi að semja um einstaka kafla en ekki heildarbreytingar þá þurfi að ákveða afstöðu í þeim köflum. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir það hins vegar vera framkvæmd sem flokkurinn væri tilbúinn í viðræður um og síðan væri mögulega hægt að gera samkomulag allra flokka um að málinu verði framhaldið eftir kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×