Innlent

Öryrki stefnir Reykjavíkurborg

Öryrki hefur stefnt Reykjavíkurborg og telur að sér sé mismunað vegna búsetu. Um er að ræða konu sem leigir hjá hússjóði Öryrkjabandalagsins og fær þess vegna ekki sérstakar húsaleigubætur. Þetta er annað prófmálið sem Öryrkjabandalagið er með í gangi.

Öryrkjabandalag Íslands er fjárhagslegur stuðningsaðili konunnar, Guðrúnar Birnu Smáradóttur, í málinu.

„Þetta snýst um það að Reykjavíkurborg hefur neitað fólki sem leigir hjá félagasamtökum eins og Brynju hússjóði, Sjálfsbjörg, SEM, að þeir fá ekki sérstakar húsaleigubætur," segir Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalagsins.

Samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar geta aðeins þeir sem leigja á almennum markaði, eða hjá Félagsbústöðum hf. átt rétt á þessum sérstöku húsaleigubótum, og fékk Guðrún þær áður en hún flutti ínn í húsnæði hússjóðs Öryrkjabandalagsins.

„við erum búin að vera að vasast í þessu lengi hjá Örykjabandalaginu. Kærðum til velferðarráðuneytisins og þaðan kom úrskurður og bréf til Reykjavíkurborgar fyrir rúmum tveimur árum síðan að þeir gætu ekki staðið á þessu af jafnræðisreglum. Það hefur ekkert gerst síðan," segir Guðmundur.

Síðan þá hefur Öryrkjabandalagið leitað að heppilegum kandídat til að fara í mál.

„Nú er þessi kona komin. Við erum með þetta sem prófmál. Við viljum að það verði gengið tilbaka og helst greitt afturvirkt finnst okkur."

Þegar hefur verið þingfest annað prófmál sem Öryrkjabandalagið stendur að baki. Þar er um að ræð öryrkja sem stefndi íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg vegna vangoldinna bóta, en mánaðarlegar örorkubætur þyrftu að vera tvöfalt hærri til að ná almennu neysluviðmiði sem ríkið sjálft hefur sett.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.