Innlent

Telja að álagið við vinnu hafi aukist

JHH skrifar
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. Mynd/ Stefán.
Tveir þriðju hlutar félagsmanna BSRB telja að álag þeirra við vinnu hafi aukist síðasta árið. Þetta kemur fram í kjarakönnun bandalagsins. Í pistli um málið á vef BSRB segir að tölurnar sýni glöggt fram á að heilt yfir hafi álag á starfsfólk aukist til muna. Þetta útskýri efalítið hvers vegna greiðslur úr sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna hafi aukist svo mikið á allra síðustu árum.

„Undanfarið hefur verið fjallað um mikla aukningu á greiðslum úr sjúkrasjóðum verkalýðshreyfingarinnar. Sú aukning hefur að hluta verið rakin til aukins álags á starfsfólk sem veldur auknum líkamlegum og andlegum veikindum með tilheyrandi fjarvistum frá vinnu. Niðurstöður kjarakönnunar BSRB styðja þessar skýringar með afgerandi hætti," segir í pistlinum.

Þá segir að samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar séu aðeins um 3% sem telja álag í vinnu hafa minnkað frá fyrra ári á meðan um þriðjungur telur álagið óbreytt. Nærri 39% telja álag sitt hafa aukist eitthvað á tímabilinu og nærri 24% telja það hafa aukist til muna á síðustu 12 mánuðum. Þannig telja nærri 63% félagsmanna BSRB að álag þeirra í starfi hafi aukist á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×