Innlent

Biskup segir Áskirkju ekki hafa fylgt siðareglum

„Það er þyngra en tárum taki að slíkt skuli hafa viðgengist og það um áratugaskeið," segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, um mál Karls Vignis Þorsteinssonar, barnaníðings.

Brotaferill Karls Vignis, sem spannar hálfa öld, er nú í hámæli í kjölfar umfjöllunar Kastljóss. Karl Vignir hefur viðurkennt að hafa brotið á allt að fimmtíu börnum.

Agnes birti stuttan pistil um brot hans og viðbrögð kirkjunnar í dag.

„Af þessu tilefni vil ég árétta að prestar og forysta safnaða þjóðkirkjunnar fylgi varúðarreglum eins og þær eru fram settar í starfsreglum og siðareglum Þjóðkirkjunnar," skrifar Agnes. „Þess hefur ekki verið gætt af hálfu Áskirkju varðandi þann einstakling er um ræðir, eins og þegar er fram komið af hennar hálfu."

Þannig kappkosti kirkjan að vera öruggt samfélag og kærleiksríkt í hvívetna. „Hún hefur því mótað verkferla og farvegi í forvarnarskyni. Hún hefur einnig skýrar vinnureglur um það hvernig við skuli brugðist komi slík mál upp."

Agnes lýkur pistlinum á þessum orðum: „Hugur minn og hjarta eru með þeim sem hefur verið brotið á. Kynferðisbrot eiga aldrei að líðast og eru smánarblettur á samfélaginu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×