Innlent

Stefnir í inflúensufarald hér á landi

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Fjöldi greindra tilfella inflúensu hefur tvöfaldast á fyrstu dögum þessa árs og segir sóttvarnarlæknir að nokkuð skæður inflúensufaraldur sé framundan. Hann hvetur fólk til að vera heima ef það finnur fyrir einkennum til að koma í veg fyrir smit.

Nú á fyrstu dögum nýs árs er algengt að inflúensan fari að láta á sér kræla og hefur sóttvarnarlæknir nú þegar tekið eftir umtalsverðri augningu í greindum tilfellum en búast má við að þeim muni fjölga næstu vikurnar.

„Þetta er eiginlega tvöföldun frá viku til viku, þannig að við erum að renna inn í faraldur núna," segur Haraldur Briem, sóttvarnalæknir.

Hann segir að álag á spítala og heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu sé farið að aukast umtalsvert en hins vegar sé flensan ekki mikið búin að dreifa sér um landið. Inflúensufaraldurinn í ár hefur verið mjög skæður í nágrannalöndum okkar og til dæmis í Boston í Bandaríkjunum hafa heilbrigðisyfirvöld lýst yfir neyðarástandi þar sem fjöldi tilfella er tíu sinnum meiri en á síðasta ári.

„Í Noregi hefur verið mikið álag á sjúkrahúsin sem bendir til þess að hún sé í skæðari kantinum og við höfum séð það sama í Bandaríkjunum en þetta eru raunverulega sömu inflúensustofnar og eru að ganga hérna."

Hann segir að mikilvægt sé að fólk þvoi sér vel um hendur og ekki hósta framan í fólk. Þá sé sama smithætta á ferðum erlendis og fólk eigi því að vera vel á varðbergi þessar vikur sem flensan er hvað skæðust.

„Ef þú færð þessi einkenni, sem er þessi skyndilega veikindatilfinning og þú færð vöðva, beinverki, hálssærindi og háan hita þá á maður að vera heima og bíða þetta af sér og draga úr líkum að menn séu að smita út frá sér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×