Innlent

Bíður látnum að hlusta á tónlist í gröfinni

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Tónlistarunnendur eiga nú tækifæri á að hlusta á uppáhalds tónlistina sína í gröfinni en sænskur frumkvöðull hefur hannað líkkistur með hágæða hljómkerfi. Vinir og ættingjar hins látna geta skipt um tónlist í gegnum internetið.

Líkkistan ber nafnið CataCoffin og er með tvo innbyggða hágæða hátalara. Líkkistan er tengd við sérhannaðan legstein þar sem hægt er að uppfæra tónlistina með 4G nettengingu. Ættingjar og vinir geta síðan valið tónlistina í gegnum vefsíðu. Kistan var fyrst kynnt fyrir mánuði síðan og hefur vakið mikla athygli.

„Við höfum fengið ótrúlega margar fyrirspurnir, ekki svo margar frá Svíþjóð, en margar frá Bandaríkjunum og Kanada. Einnig frá Taívan," segir Fredrik Hjelmquist, framkvæmdastjóri.

Hann segist sjálfur vilja láta grafa sig í kistunni en hún kostar tæpar tvö hundruð þúsund sænskar krónur eða um fjórar milljónir íslenskra króna.

„Við höfum ekki selt neinar enn, en það er einn sem vill fá innbyggðan skjá svo hann geti horft á síðustu seríuna af Breaking Bad. Ég hlæ ekki að þessu því þetta er raunverulegt. Ég er viss um að við seljum þessa kistu og svo vonast ég til að einhver rokkstjarna kaupi eina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×