Innlent

Fyrirtæki vöruð við flóknum svikum tölvuþrjóta

Lögregla á Norðurlöndum varar við tölvuinnbrotum sem eiga sér stað í samskiptum norrænna og kínverskra fyrirtækja í þeim tilgangi að komast yfir lögmætar greiðslur fyrir vörur og þjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Brotin fara þannig fram að glæpamenn „hakka sig inn í" tölvupóstsamskipti norrænna og kínverskra fyrirtækja sem sinna löglegum innflutningi/útflutningi. Þannig komast glæpamennirnir yfir upplýsingar um viðskipti og fjármunatilfærslur á milli fyrirtækjanna þar með talið upplýsingar um bankareikninga og hvenær von er á næstu greiðslu.

Glæpamennirnir koma sér því næst upp tölvupóstfangi sem er nánast eins og tölvupóstfang útflutningsfyrirtækisins. Dæmigert er að munurinn felist aðeins í einum punkti eða einn bókstafur sé frábrugðinn því sem við á um hið rétta póstfang útflutningsfyrirtækisins. Þeir opna einnig bankareikning á tilbúnu nafni og nýta iðulega falsað vegabréf í þeim tilgangi.

Glæpamennirnir senda síðan innflutningsfyrirtækinu tölvupóst þar sem þeir kveðast vera fulltrúar útflutningsfyrirtækisins. Iðulega eru slík tölvubréf undirrituð í nafni aðila sem starfar í raun hjá útflutningsfyrirtækinu og starfsfólk innflutningsfyrirtækisins þekkir eða kannast við. Í þessu tölvubréfi upplýsa glæpamennirnir innflutningsfyrirtækið um að útflutningsfyrirtækið hafi tekið upp viðskipti við nýjan banka og að í framtíðinni beri að senda greiðslur inn á tiltekinn reikning í tilteknum banka.

Verði innflutningsfyrirtækið við þessari beiðni án athugasemda fara greiðslurnar inn á reikninga í bönkum í Kína eða Hong Kong. Þar staldra þær stutt við því glæpamennirnir senda fjármunina strax til annarra landa.

Dæmigert er að innflutningsfyrirtækið tapi með þessu móti 3.000 – 100.000 evrum eða 510.000 til 17 milljónum króna (miðað er við gengi evru 15.01.2013).

Mikilvægt er því að fyrirtæki sem eiga í viðskiptum við aðila í Kína sannreyni að ekki séu glæpamenn á ferð fái þau upplýsingar um að viðkomandi hafi skipt um bankastofnun og beiðni um að senda framvegis greiðslur þangað. Þær upplýsingar þarf að sjálfsögðu að sannreyna á annan hátt en þann að senda tölvubréf. Ástæða er til að ætla að brot þessi séu tíðari en fram kemur í norrænum lögregluskýrslum.

Í flestum tilvikum verða lítil og meðalstór einkafyrirtæki í innflutningi/útflutningi fyrir þessum lögbrotum. Oft er um að ræða fyrirtæki sem árum saman hafa staðið í viðskiptum við aðila í Kína. Um er að ræða fyrirtæki í hverskyns viðskiptum við aðila í Kína t.a.m. hvað varðar innflutning á fatnaði, tækjum, lækningatækjum, sólarrafhlöðum, rafmagnstækjum og fylgihlutum.

Talið er að einkum séu að verki einstaklingar og glæpahópar sem rætur eiga að rekja til Nígeríu, Vestur-Afríku, Mið-Austurlanda og Suður- og Austur-Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×