Innlent

Lífeindafræðingar fá skráð skróp í kladdann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lífeindafræðingar á Landspítalanum hafa undanfarna mánuði fundað vegna óánægju sinnar með kjaramál. Fundirnir hafa farið fram á vinnutíma og í óþökk framkvæmdastjóra rannsóknardeildar spítalans.

Í fréttatilkynningu sem lífeindafræðingar sendu frá sér í síðustu viku kom fram að fundað hefði verið einn til þrjá morgna í viku vegna kjaramálanna. Viðræður samstarfsnefndar lífeindafræðinga á Landspítalanum, sem staðið hafa yfir í þónokkurn tíma, eru sagðar engu hafa skilað. Fundunum hafi því verið haldið áfram.

Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítala, tilkynnti í síðustu viku að yrði ekki gert hlé á fundarhöldunum ættu yfirmenn hverrar deildar að skrá fjarveru starfsmanna. Tíminn yrði dreginn af launum.

Í bréfi sem Ásbjörn sendi til stjórnenda á rannsóknarsviði á mánudag kemur fram árétting um að ekki verði lengur við unað að lífeindafræðingarnir sæki hópfundi tengda kjarabaráttu án samráðs við stjórnendur.

Spítalinn sjái sér ekki annað fært „en en að líta á slík fundarhöld á vinnutíma sem ólögmæta fjarvist frá vinnu," eins og segir orðrétt í bréfi Ásbjörns til stjórnenda sem fréttastofa hefur undir höndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×