Innlent

Formannskosning hefst á morgun - stærsta rafræna kosningin innan stjórnmálaafls

Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson.
Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson.
Allsherjaratkvæðagreiðsla um nýjan formann Samfylkingarinnar hefst á morgun föstudaginn 18. janúar, og stendur til mánudagsins 28. janúar, klukkan 18:00.

Í tilkynningu frá Samfylkingunnni kemur fram að kosið verður með rafrænum hætti á heimasíðu Samfylkingarinnar - xs.is. Hægt er að fá atkvæðaseðil sendan í bréfpósti á lögheimili en slík beiðni þarf að berast skrifstofu Samfylkingarinnar í síðasta lagi kl. 18.00 næstkomandi mánudag 21. janúar.

Fullyrt er í tilkynningunni að hér sé um að ræða stærstu rafrænu kosningu sem farið hefur fram á vegum stjórnmálaflokks hér á landi. Kosningarétt hafa skráðir félagar í flokknum og á kjörskrá eru rúmlega 18.000. Kjöri formanns verður lýst á landsfundi Samfylkingarinnar í Valsheimilinu Hlíðarenda laugardaginn 2. febrúar.

Formannsframbjóðendurnir Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson funda um allt land þessar vikurnar. Þeir munu rökræða á kjördæmisþingi Suðvesturkjördæmis í kvöld fimmtudagskvöld á Strandgötu 43 í Hafnarfirði. Á kjördæmisþingi Suðurkjördæmis í Tryggvaskála í Árborg á laugardagsmorgun kl. 10.00 og sama dag á kjördæmisþingi Norðausturkjördæmis í húsnæði Golfklúbbs Akureyrar, Jaðri kl. 16:00.

Þá munu Árni Páll og Guðbjartur leiða saman hesta sína á fundi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar á Hótel Holti kl 17.00 föstudaginn 18. janúar og á hádegisfundi Ungra Jafnaðarmanna í Stúdentakjallaranum fimmtudaginn 24. janúar.

Fundirnir og kjördæmisþingin eru opin öllum flokksfélögum Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×