Innlent

Æfa viðbrögð við sjóslysi í Landeyjahöfn

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og aðrir samstarfsaðilar æfa í dag viðbrögð við miklu sjóslysi á suðvesturströnd Íslands. Á æfingunni er tekist á við þá sviðsmynd að ferjan Herjólfur hlekkist á við innsiglinguna í Landeyjahöfn með nokkur hundruð farþega um borð.

Um svokallaða skrifborðsæfingu er að ræða en fulltrúar frá Landhelgisgæslunni, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Siglingastofnun, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Landspítalanum og skipafélaginu Eimskip koma að æfingunni.

Fréttastofa fékk ábendingu frá fjarskiptaáhugamanni sem fylgdist með samskiptum Landsbjargar. Honum hefur vafalaust brugðið í brún þegar björgunarmenn töluðu sín á milli um hátt í 350 farþega Herjólfs sem voru í háska staddir.

Sú reyndist ekki vera raunin. Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir æfinguna vera afar yfirgripsmikla. Engu að síður sé í rauninni ekki um annað en flókið og dramatískt útvarpsleikrit að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×