Innlent

Vilborg komin á Suðurpólinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vilborg Arna Gissurardóttir varð í kvöld fyrsti Íslendingurinn til þess að ganga einn síns liðs á Suðurpólinn. Ganga Vilbogar hefur staðið yfir undanfarna tvo mánuði og eru um 1140 kílómetrar að baki.

Elín Sveinsdóttir, sem hefur verið Vilborgu Örnu innan handar hér á landi á meðan á göngu hennar hefur staðið, staðfesti í samtali við Vísi fyrir stundu að Elín hefði lokið göngu sinni um 23 leytið að íslenskum tíma.

„Hún er komin," sagði Elín sem verið hafði í sambandi við ættingja Vilborgar Örnu.

„Það var rétt fyrir ellefu sem hún kom. Hún tjaldaði, kom sér fyrir og er nú að hringja í ættingja sína og vini," sagði Elín.

Það hafa skipst á skin og skúrir á langri göngu Vilborgar Örnu. Um tíma þjáðist hún af vökvaskorti en náði sér vel á strik á nýjan leik. Eins og gefur að skilja hefur sleði Vilborgar Örnu, sem hún hefur haft í eftirdragi, lést eftir því sem á göngu hennar hefur liðið. Sem betur fer enda þreytan mikil eftir tveggja mánaða göngu.

Reiknað hafði verið með því að göngu Vilborgar Örnu myndi ljúka um kvöldmatarleytið. Elín segir að síðasti dagurinn hafi verið erfiður skíðalega séð.

„Hún er brött eftir erfiðan dag, búin að koma sér fyrir í tjaldinu sínu og sefur í nótt í því," sagði Elín.

Ganga Vilborgar Örnu var í þágu Lífs styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans. Menn geta sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908 1515 ( 1500 kr) eða með frjálsum framlögum á heimasíðunni www.lifsspor.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×